Abler skilmálar um færsluhirðingu fyrir íslensk félög
(síðast uppfært 12. nóvember 2024)
Þessir skilmálar gilda um öll félög sem selja þjónustu eða vöru í gegnum kerfi Abler. Hugtök sem eru rituð með stórum upphafsstaf hafa þá merkingu sem lýst er í notkunarskilmálum Abler nema annað sé tekið fram.
1. Krafa um að hafa rammasamning við samþykktan færsluhirði
1.1. Félagið má eingöngu selja þjónustu eða vöru í gegnum kerfi Abler ef félagið er með gildan rammasamning við færsluhirði, af lista þeirra færsluhirða sem samþykktir eru af Rekstraraðila.
1.2. Félagið má eingöngu nota greiðsluleiðir sem tilgreindar eru í rammasamningi við færlsuhirði. Til að taka við greiðslum í gegnum kerfið skal félagið eða færsluhirðir útvega Rekstraraðila samningsnúmer og fleira sem þarf til að tengja kerfið við greiðsluleiðina.
2. Samþykktir færlsuhirðar
2.1. “Samþykktur færsluhirðir” er færsluhirðir sem hefur verið samþykkt af Rekstraraðila. Rekstraraðilinn getur útvegað félaginu lista yfir samþykkta færsluhirða.
2.2. Rekstraraðili áskilur sér rétt til að gera breytingar á listanum yfir samþykkta færsluhirða.
3. Skyldur félagsins
3.1. Félagið semur beint við samþykktan færsluhirði og ber ábyrgð á endurgreiðslum til færsluhirðis, þ.á.m. endurkröfum (chargeback).
3.2. Félagið má einungis nota kerfið til að selja þjónustu/vöru ef að félagið sjálft útvegar þjónustuna/vöruna.
3.3. Öll sala félagsins í kerfinu er bein sala milli félagsins og kaupanda, og er samningur milli félagsins og kaupanda. Rekstraraðilinn er ekki aðili að sölunni og ber ekki ábyrgð á afhendingu félagsins á vöru/þjónustu.
3.4. Félagið ber ábyrgð á að uppfylla skyldur gagnvart lögum, reglugerðum og reglum hvað varðar sölu þjónustu/vöru í gegnum kerfið..
3.5. Félagið samþykkir að fyrra Rekstraraðila ábyrgð gegn öllu tapi, skaða, kostnaði, þ.á.m. málskostnaði í tengslum við kröfur, lögsókn, kærur eða málsmeðferð í tengslum við rammasamninga félagsins við færsluhirði eða sölu á þjónustu/vöru í gegnum kerfið..
4 Val á innheimtuaðila
Kröfur, þ.m.t. milliinnheimta og löginnheimta eru innheimtar af samstarfsaðila að vali Abler.
4.1 Útgáfa og innheimta greiðsluseðla í gegnum Greiðslumiðlun
4.1.1 Almennt um innheimtuþjónustuna og verkferlið
- Sumir greiðsluseðlar sem gefnir eru út í kerfum ABLER eru gefnir út af Greiðslumiðlun og innheimtir af þeim sjálfum og eftir atvikum Motus og Lögheimtunni, hér eftir nefnt GML.
- Þjónusta GML vegna krafna sem stofnast í kerfum ABLER nær aðallega til fimm þjónustuþátta. Í fyrsta lagi er um að ræða fruminnheimtu, sem felur í sér útsendingu innheimtuviðvörunar í nafni kröfuhafa (KH). Í öðru lagi milliinnheimtu, áður en tilefni er til lögfræðilegra aðgerða. Í þriðja lagi nær samningur til kröfuvaktar sem er þjónusta ætluð til innheimtu þeirra krafna sem ekki hefur tekist að fá greiddar þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir í milliinnheimtu og/eða löginnheimtu. Í fjórða lagi er um að ræða löginnheimtu sem felst í beitingu lögfræðilegra innheimtuúrræða. Í fimmta lagi er um að ræða millilandainnheimtu sem felst í innheimtu krafna utan Íslands, með aðstoð samstarfsaðila GML.
- Aðilar skulu koma sér saman um verkferla við innheimtu krafna og skulu þeir teljast hluti samnings. Breytingar á verklagsferlum eru heimilar enda séu samningsaðilar sammála um þær og hafa slíkar breytingar engin áhrif á gildi/efni samnings þessa að öðru leyti.
- GML er heimilt að hafa milligöngu um að þær skuldir sem uppfylla skilyrði til skráningar á vanskilaskrár verði skráðar í vanskilaskrá Creditinfo ehf. eða hliðstæða skrá, nema þegar ósk berst um annað frá KH.
- Starfsfólki GML er heimilt að veita greiðslufresti fyrir hönd KH, eftir því sem eðlilegt telst til innheimtu kröfunnar.
- GML tekur að sér að senda innheimtuviðvaranir sem KH ber að senda samkvæmt innheimtulögum og innheimtu allra vanskilakrafna fyrir KH með þeim hætti sem nánar er greint í samningi þessum. Innheimtuviðvörun sem GML sendir í nafni KH skal almennt send út innan 10 daga frá eindaga kröfu.
- Sjái GML ekki um útsendingu innheimtuviðvarana fyrir KH og hafi slík viðvörun ekki verið send, eða ekki rétt að henni staðið, ber KH að greiða áfallinn og útlagðan kostnað MOTUS, ef greiðandi hafnar greiðslu.
- Kostnaður við sendingu innheimtuviðvörunar leggst á greiðanda kröfu og rennur beint til GML. Innheimtugjald lagt á greiðanda í milliinnheimtu er gjald á hverja aðgerð sem GML grípur til við innheimtu kröfunnar. Gjaldið tekur mið af þeirri fjárhæð sem til innheimtu er og miðast við gjaldskrá GML á hverjum tíma. Greiðandi kröfunnar greiðir innheimtugjaldið, nema um annað sé samið sérstaklega.
4.1.2 Kröfuvakt og millilandainnheimta
- Í kröfuvakt er heimilt að semja um vaxtastig, fella niður vexti og hluta höfuðstóls kröfunnar og semja um greiðsludreifingu til lengri tíma, ef það samræmist hagsmunum KH, að mati GML.
- Ef ekki er samið um annað hefur GML fullt umboð KH til flutnings á kröfum yfir í kröfuvakt í þeim tilfellum sem krafa hefur ekki fengist greidd í milliinnheimtuferlinu. Hafi málið farið í gegnum milliinnheimtu hjá GML ber KH engan kostnað af því að skrá eða hafa kröfur sínar í kröfuvakt, en GML fær í sinn hlut 50% af innheimtum höfuðstól og vöxtum.
- Við ráðstöfun innborgana á kröfur í millilandainnheimtu er farið að lögum og reglum í hverju landi. Innheimtugjald lagt á greiðanda er fast gjald á hverja ítrekun sem GML sendir út. Gjaldið tekur mið af þeirri fjárhæð sem til innheimtu er og miðast við gjaldskrá GML á hverjum tíma á hverjum stað. Greiðandi kröfunnar greiðir innheimtugjaldið, nema um annað sé samið sérstaklega.
- GML tekur að sér umsjón með löginnheimtu að aflokinni hefðbundinni millilandainnheimtu að höfðu samráði við KH. KH getur einnig valið um að setja kröfur sínar beint í löginnheimtu erlendis án þess að fara með þær fyrst í gegnum milliinnheimtu. Í þessum tilvikum gildir gjaldskrá hvers lands fyrir sig hverju sinni. KH skal greiða allan áfallinn kostnað GML eða umboðsaðila, sem haft hefur kröfu til innheimtu, enda hafi áður verið haft samráð við KH.
4.1.3 Löginnheimta
- Í löginnheimtu leggst innheimtugjald eða málskostnaður á kröfu, þóknun fyrir einstakar aðgerðir til innheimtu kröfunnar, hvers konar útlagður kostnaðar af innheimtunni, sem og vextir af þóknun og kostnaði. Greiðandi kröfunnar greiðir almennt allan kostnað af innheimtunni, nema um annað sé samið sérstaklega. Þóknanir taka mið af gjaldskrá Lögheimtunnar á hverjum tíma.
- Nauðasamningur skal ekki gerður við greiðanda, eða annars konar eftirgjöf kröfu veitt af Lögheimtunni, án samþykkis KH, nema krafa sé komin í kröfuvakt.
- Lögheimtunni ber að hafa samráð við KH um boð í eignir á nauðungarsölu, sem leiða kunna til uppboðskaupa. Séu uppboðskaup gerð skal kostnaður Lögheimtunnar vegna innheimtunnar gerður upp þegar uppboðsafsal liggur fyrir. Lögheimtan aðstoðar við rýmingu húsnæðis, berist ósk um það frá KH. Kostnaður við rýmingu er samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunnar.
- Greiðist áfallin þóknun og kostnaður að fullu, án þess að greiðandi hafi uppi varnir gegn greiðsluskyldu sinni, ber KH engan kostnað af innheimtu kröfunnar, nema ákvörðuð þóknun dómara sé lægri en áfallinn kostnaður.
- Reynist innheimtuaðgerðir árangurslausar ber KH að greiða þóknun samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunnar á hverjum tíma, auk virðisaukaskatts og alls kostnaðar sem Lögheimtan hefur lagt út vegna innheimtunnar. Gildandi gjaldskrá er birt á viðskiptavef GML, sem er aðgengilegur af www.motus.is.
- Taki greiðandi til varna, fyrir dómi eða á öðrum stigum innheimtunnar, hefur Lögheimtan samráð við KH um frekari aðgerðir. Sama á við ef birting stefnu eða greiðsluáskorunar tekst ekki hér á landi. Lögheimtan heldur þá skrá yfir þá tíma sem varið er til rekstrar málsins og gerir KH reikning, samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunnar. Lögheimtan getur hvenær sem er áskilið sér greiðslu fyrir áætlaðri þóknun og kostnaði, áður en málinu er haldið áfram.
- Lögheimtan skal jafnan kostgæfa að grípa ekki til innheimtuaðgerða nema þær séu líklegar til að skila árangri. Í vafatilvikum skal hafa samráð við KH. Öðru jöfnu skal þó gera kröfu aðfararhæfa og biðja um fjárnám hjá greiðanda, nema gjaldþrotaskipti eða nýlegt árangurslaust fjárnám gefi tilefni til annars.
4.1.4 Gildistími og uppsögn
- Með því að bjóða uppá útgáfu greiðsluseðla úr kerfum ABLER telst KH samþykkja skilmála GML og gildir samkomulag aðila á meðan KH nýtir þjónustu GML í kerfum ABLER.
- Sé samningi sagt upp hefur GML rétt á að ljúka innheimtu á þeim málum sem skráð hafa verið í ferlið og þeim sem berast á uppsagnarfresti. Óski KH eftir afturköllun á kröfum sínum úr kröfuvakt á GML rétt á greiðslu 50% af samanlögðum höfuðstól krafnanna.
4.1.5 Ýmis atriði
- Í þeim tilvikum sem kveðið er á um árangurstengda innheimtuþóknun reiknast hún af innheimtum höfuðstól og vöxtum. GML er heimilt að láta skráningar- og áskriftagjöld fylgja breytingum á gjaldskrá eða vísitölu neysluverðs, miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá janúarmánuði þess árs sem samningur er gerður. Fjárhæðir í þessum samningi eru án virðisaukaskatts.
- KH skal hafa aðgang að viðskiptavef GML, þar sem hægt er að fá upplýsingar um stöðu einstakra krafna á hverjum tíma. GML birtir daglega á viðskiptavefnum heildaryfirlit yfir stöðu allra innheimtumála.
- Allar innborganir á kröfur skulu varðveittar á fjárvörslureikningi. GML skal daglega millifæra innborganir á bankareikning KH, vegna milliinnheimtu og kröfuvaktar, en hálfsmánaðarlega vegna löginnheimtu, nema um annað sé samið sérstaklega.
- Eftir að krafa hefur verið skráð til innheimtu, veitir GML greiðslu kröfunnar viðtöku, nema samið sé um skiptar greiðslur. Með skiptum greiðslum er átt við að á meðan kröfur eru virkar í kröfupotti viðskiptabanka KH berist greiðslur þaðan til hvors aðila. Verði vanskil á greiðslum KH á reikningum GML eða ekki staðið við greiðslusamkomulag á öðrum gjaldföllnum reikningum frá GML, hefur GML á öllum stigum heimild til að breyta þessari ráðstöfun og ráðstafa öllum innborgunum fyrst til greiðslu hvers konar vanskila við GML, en greiða mismuninn til KH.
- Ef krafa er greidd beint til KH, eftir skráningu, ber KH að standa GML skil á áfallinni þóknun, áföllnum innheimtukostnaði, skráningargjaldi og árangurstengdri þóknun til GML, eftir því sem við á.
- Innborganir á kröfur ganga fyrst til greiðslu á vöxtum af útlögðum kostnaði, þá til greiðslu á útlögðum kostnaði og svo til greiðslu á innheimtugjaldi og annarri þóknun. Þegar innheimtugjaldið og þóknun er greidd ganga innborganir fyrst upp í vexti og því næst höfuðstól kröfunnar. Þetta gildir þótt krafan greiðist ekki að fullu.
- GML er heimilt að tilgreina KH opinberlega í kynningarskyni sem einn af sínum viðskiptavinum, þ.m.t. senda út fréttatilkynningar, birta auðkenni (logo) o.s.frv.
- GML skuldbindur sig til að sinna innheimtunum af kostgæfni, hraða og með fullri virðingu fyrir greiðanda, enda sé tekið tillit til sambands greiðanda og KH í hverju tilviki.
4.2. Útgáfa og innheimta greiðsluseðla í gegnum Arion
Kröfuhafi veitir rekstaraðila fullt umboð til þess að annast alla kröfuumsýslu kröfuhafa í sameiginlegu innheimtukerfi banka og sparisjóða, í svonefndum kröfupotti Reiknistofu bankanna, í gegnum innheimtuþjónustu Arion banka hf. Kröfuhafi veitir rekstaraðila fullt umboð til að hafa aðgang að, og sækja um ef þarf, tengingu við netbanka Arion banka hf. í gegnum notendanafn kröfuhafa, samning um rafræna birtingu skjala og B2B þjónustu Arion banka hf. Þetta er gert til þess að kröfurnar birtist í nafni kröfuhafa í netbönkum, á greiðsluseðlum og þess háttar.
5. Uppfærslur á þessum skilmálum
5.1. Rekstraraðili áskilur sér rétt til að uppfæra þessa skilmála.